Kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:05:49 (2099)

1996-12-12 17:05:49# 121. lþ. 42.96 fundur 138#B kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi# (umræður utan dagskrár), Flm. GL
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:05]

Guðmundur Lárusson:

Herra forseti. Þann 25. febrúar 1995 samþykkti Alþingi þáltill. um að Alþingi feli menntmrh. að hefja undirbúning að því að koma á námi í iðjuþjálfun hér á landi. Flutningsmenn tillögunnar voru hv. þm. Kristín Einarsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Margrét Frímannsdóttir, Guðmundur Bjarnason og Sigbjörn Gunnarsson. Menntmn. samþykkti tillöguna óbreytta, en þá átti meðal annarra sæti í henni Björn Bjarnason, hæstv. núv. menntmrh.

Frá því tillagan var samþykkt hefur margháttaður undirbúningur fyrir þessu námi átt sér stað meðal þeirra sem málið varðar. Í byrjun síðasta árs dvaldi hér á landi bandarísk kona, doktor í iðjuþjálfun. Hún lagði til í samvinnu við skólanefnd Iðjuþjálfafélags Íslands og Háskóla Íslands að komið yrði á 120 eininga fjögurra ára námi í iðjuþjálfun við háskólann í tengslum við kennslu í öðrum heilbrigðisgreinum við skólann.

Fjármálasvið Háskóla Íslands hefur metið kostnað við kennsluna. Þar er komist að þeirri niðurstöðu, samkvæmt bréfi sem hæstv. menntmrh. sendi formanni fjárln. 5. desember 1995, að undirbúningur fyrir námið muni kosta 1 millj. kr. Jafnframt segir í bréfi hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Kennslukostnaður fyrsta árið mun verða um 5,3 millj. kr. og þegar kennsla er hafin á öllum námsárum eftir fjögur ár verður kennslukostnaðurinn alls 17,8 millj. á ári. Kostnaður vegna kennslu við nýja námsbraut í iðjuþjálfun mun því nema samtals 51,7 millj. kr. næstu fimm árin.``

Nú er staða þessa máls þannig að forráðamenn Iðjuþjálfafélags Íslands eru sendir milli háskólans og menntmrn. þar sem allir lýsa jákvæðum huga til málsins en enginn virðist geta tekið ákvörðun um að tryggja nauðsynlegt fjármagn til námsins. Þörfin fyrir þetta nám á Íslandi er ótvíræð og hefur verið viðurkennd af öllum sem að þessu máli hafa komið. Það er því illa farið með það fólk sem hefur unnið að framgangi þessa máls á undanförnum árum að senda það erindisleysu milli menntmrn. og háskólans.

Í lok áðurnefnds bréfs hæstv. menntmrh. segir, með leyfi forseta:

,,Menntmrn. hefur átt gott samstarf við Iðjuþjálfafélag Íslands og Háskóla Íslands við undirbúning þessa máls. Þá liggur fyrir eindreginn stuðningur heilbr.- og trmrn. við málið. Eru á þessu stigi ekki gerðar athugasemdir við áætlanir um faglegt skipulag og kostnað vegna námsins og telur ráðuneytið að á grundvelli þeirra geti Alþingi tekið afstöðu til þess hvort veita eigi fé til að hefja kennslu í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands.``

Í því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir er ekki gert ráð fyrir viðbótarkostnaði vegna þessa náms við Háskóla Íslands. Ljóst er að ekki er um háar fjárhæðir að ræða. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið um þörfina á sérmenntuðum iðjuþjálfum sýna að hún er mikil. Hér á landi starfa um 20 iðjuþjálfar fyrir hverja 100 þúsund íbúa, en sambærileg tala er fyrir Svíþjóð 63 og 50 í Danmörku. Breyttar áherslur í heilbrigðismálum hér á landi þar sem aukin áhersla er lögð á að gamalt fólk og fatlaðir séu sem mest heima hjá sér en ekki á stofnunum gera þörfina fyrir iðjuþjálfun mun meiri, sérstaklega utan sjúkrahúsa og endurhæfingarstöðva. En í dag starfar enginn iðjuþjálfi við heilsugæslustöð þrátt fyrir lagaákvæði þar að lútandi, enginn iðjuþjálfi starfar á vegum hins opinbera innan almenna skólakerfisins, á dvalarheimilum og þjónustumiðstöðvum fyrir aldraða né við heimaþjónustu fyrir aldraða á vegum sveitarfélaga.

Umræða um nám í iðjuþjálfun er ekki ný af nálinni á Íslandi. Hún hefur staðið frá árinu 1973 sem leiddi til þess að á árunum 1988 og 1989 starfaði nefnd með fulltrúum menntmrn., háskólans, Læknafélags Íslands og Iðjuþjálfafélags Íslands sem kannaði hvort tímabært væri að hefja kennslu í þessari grein á Íslandi. Nefndin skilaði af sér áliti í maí 1989 og komst að sömu niðurstöðu og bandaríski doktorinn hefur nú komist að, þ.e. að hefja kennslu í faginu sem miði að BS-gráðu eftir 120 eininga nám í fjögur ár.

Í dag sækir fólk aðallega nám í iðjuþjálfun til Norðurlandanna. Kennslan þar miðast að sjálfsögðu við aðstæður sem eru um margt ólíkar því sem hér er, hvort sem horft er til uppbyggingar heilbrigðis- og félagskerfis eða aðstæðna í samfélögum Norðurlanda almennt. Þá er alltaf hætta á því að erfiðlega gangi að fá fólk heim til Íslands eftir nám í útlöndum.

Í dag starfa 65 iðjuþjálfar á Íslandi. 25 íslenskir iðjuþjálfar eru búsettir í útlöndum en talin er þörf á að um 200 iðjuþjálfa þurfi til starfa umfram þá sem nú eru við störf í landinu. Það er því stjórnvöldum til vansæmdar að draga þetta mál með því að útvega ekki nauðsynlegt fjármagn til kennslunnar.

Þingmenn Alþb. munu leggja fram brtt. við 2. umr. á frv. til fjárlaga þar sem gert er ráð fyrir að Háskóla Íslands verði tryggt það fjármagn sem fyrrnefnd áætlun gerir ráð fyrir til að hefja kennslu við iðjuþjálfun við skólann. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann muni styðja þá tillögu og hvort hann muni beita sér fyrir því að stjórnarflokkarnir í heild sinni geri slíkt hið sama.